Hjólin á strætó far'í hring, hring, hring

Heyriði - stóribróðir fundinn og meira en það; hann er að verða pabbi. Sem þýðir að ég er að eignast lítinn bróðurson. Mikil gleði á þessu heimili, verðandi farmor og farfar alveg í skýjunum.

 Af mér er allt gott að frétta. Það er mikið mikið að gera hjá mér, en í dag náði ég að troða einu bloggi inn í dagskrána. 

Ég ferðast mjög mikið með strætó, og kann þess vegna allar strætóferðir til og frá Trige utanað. Þess vegna veit ég líka að það eru þrjár gerðir af strætó sem Midttrafik (strætófyrirtækið í Århus) notar. Elsta gerðin er með lélegum, hringlóttum sætum sem maður getur snúið sér á, þannig að maður er alltaf á fullri ferð í beygjum. Ekkert sérstaklega þægilegt, og síðan er alltaf vond lykt. Næstelsta og mest notaða gerðin er með kassalaga sætum sem eru mjög þægileg. Það eru tvö og tvö sæti út um allt, og síðan eru svona 6 einsmannssæti.

 Það er alltaf hörð keppni um einsmannssætin á milli þeirra sem eru einir, því auðvitað vilja fæstir sitja við hliðina á einhverjum ókunnugum! Sætin fyrrnefndu, þessi kassalaga, eru passlega stór svo maður þarf ekki að snerta þann ókunnuga við hliðina á, og þarf þess vegna ekki að vera hræddur um að smitast af þeim fjölmörgu sjúkdómum sem annað fólk er með. Sá sem situr innst situr þó með andlitið kramið upp að rúðunni til að vera alveg hundrað prósent viss um að smitast ekki, og sá sem situr yst situr bara með helminginn af líkamanum á sætinu, og er við það að detta í hvert skipti sem strætó beygir - en ég meina, hvað gerir maður ekki til að þurfa ekki að koma við einhvern sem maður þekkir ekki, og hvað þá ef það er einhver af hinu kyninu?!

 Ef eitthvað óvænt gerist, eins og t.d. ef strætó bremsar mjög snögglega og allir skjótast í stólbakið fyrir framan, þá getur það gerst að hendur tveggja ókunnugra manneskja snertast, og þá er fjandinn laus! Þá er beðist afsökunar rauðum kinnum á að hafa farið svona langt yfir strikið - að hafa beinlínis SNERT höndina. Oft velur annar aðilinn að færa sig, eða fara úr strætó eftir slíkt hneyksli. Léttist þá andrúmsloftið..

 

Ég skemmti mér oft við að horfa á fólk, sem reynir svo innilega að snerta engan, því það er "an invation of their personal space". Mér finnst þetta svo fáránlegt, og það er eins og þetta verði verra með ári hverju. Kúlan sem maður hefur í kringum sig verður stærri og stærri. Strætóframleiðandinn Scania er greinilega á sömu skoðun og ég, því í þriðju og nýjustu gerðinni af strætó er þetta vandamál tekið fyrir. Það eru engin sæti fyrir einn! Það eru hinsvegar hellingur af þremur sætum hlið við hlið, og jafnvel 2 sætaraðir sem snúa á móti hvorri annarri og það er svo lítið pláss fyrir lappirnar að það er ekki annað hægt en að snerta hnén á manneskjunni á móti. Gangarnir eru mjög þröngir, þannig að þegar maður er að verða kominn að stoppistöðinni sinni og er að fara að hurðinni, þá verður maður að troða sér á milli þeirra sem standa, og þar af leiðandi snertir maður helling af fólki. Mér finnst þetta alveg frábært, og sérstaklega er gaman að sjá snertifælið fólk standa þarna ótrúlega vandræðalegt!

 Einmitt já - góðar stundir.

Sunna. 


Wanted.

 

 Hefur einhver séð þennan mann?

 

Týskalandsferd og afmælisgjafir 017

 

 

 Atli Þór Fanndal heitir hann. Hefur ekki sést á þessu heimili síðan júní 2007, en þó hitti ég hann á Íslandi í enda júlí. Erfitt er að vita hvar hann er, þar sem hann flakkar á milli Íslands, Indlands, Noregs og dreymir um að komast til Bretlands. 

 Hann er þónokkuð skyldur mér, en hugskeytin eru eitthvað að klikka núna. Síðast þegar ég sá til hans var hann að spila með bandinu sínu Teenacious D í Bandaríkjunum... 

 

 

 

 

 

 Hann er beðinn hafa samband við litlusys í útlandinu.

 

 Allar vísbendingar eru vel þegnar. Takk fyrir.


Ráðvilltur unglingur í bæjarstjórn Århus...

Ég verð að viðurkenna að þessi bloggsíða mín er kannski ekki alveg sprellhoppandi lífleg, og hvað þá troðfull af bloggfærslum. Ég biðst afsökunar, ég skammast mín hrikalega.

Lífið í Danmörku er yndislegt. Allt er eins og það á að vera, og það ætti ekki annað að vera mögulegt en að láta sér líða vel. En samt gæti mér liðið betur. Ég er að verða þreytt. Þreytt á að vera í grunnskóla, þreytt á vinnunni minni, þreytt á Danmörku, og aðallega - þreytt á sjálfri mér. Þetta gerist reglulega, og þetta er ekkert alvarlegt. Ég hef alltaf lifað þetta af. Samt er þetta óþægileg tilfinning, og samviskan alveg að éta mig að innan. Allt er fullkomið, og samt leyfi ég mér að vera eirðarlaus. 

Ég hef stóran galla, og það er að ég verð svo fljótt þreytt á hlutum og umhverfi, og þarf endalaust að breyta til og prófa nýja hluti. Þetta getur líka verið kostur stundum, því þá er ég viss um að ég prófi allt nýtt og festist ekki bara einhversstaðar - vakni svo einn daginn og uppgötvi að lífið er að verða búið. En í augnablikinu er þetta bara stór galli, því ég get ekki bara breytt til eins og ég vil. Ég get ekki bara flutt til útlanda og farið beint í menntaskóla eins og mig langar mest til. Ég neyðist til að bíða. Og þolinmæði hefur aldrei verið mín sterkasta hlið.  Ég er unglingur... Þetta er alveg eðlilegt. Er það ekki annars?

En að aðeins gleðilegri tíðindum og röfli. Ég fékk ánægjulegt bréf í fyrradag. Ég var valin í bæjarstjórn Århus, fyrir börn og ungmenni, ásamt 31 öðrum einstaklingum. Ég er mjög stolt, og hlakka mikið til að fara á fyrsta bæjarstjórnarfundinn minn þann 30. október. Fundurinn verður haldinn í Ráðhúsinu, í fundarsal bæjarstjórnarinnar. Þetta er verkefni sem Århus bær er að byrja á. Það er búin til sérstök borgarstjórn einungis með krökkum undir 18 ára. Þessir krakkar eiga að ræða um hvað sé hægt að gera betur fyrir ungmenni í Århus.

Ég fer á 6 fundi í allt. 4 fundir fara sem sagt í að ræða hvað má gera betur í bænum. 1 fundur verður með "alvöru" bæjarstjórninni og síðan verður einn fundur fyrir fjölmiðla. 

Þetta er mjög spennandi allt saman, og mikil tilhlökkun á þessum bæ. I'll keep you tuned.

 

Annars er allt í gúddí þannig lagað. Amma og afi komin í heimsókn - ættingjar eru yndislegir. Ójá.

 mæðgur

 ?attid=0

ps. Ég var að komast að því hvað ég er orðin dönsk!! Ég hélt að orðið uppgötva væri skrifað og sagt uppgvöta. Rökræddi heillengi við mömmu um þetta, og þetta orð meikar ennþá ekki sens í hausnum á mér. En svona er þetta jú... Ses!

 


Dagur í tískuvöruversluninni Bestseller.

Ég staulast út í horn þar sem enginn sér. Dreg tærnar hægt uppúr hælaskónum, stelst til að setja þær á kalt gólfið og finn þreytuna líða úr bólgnum tánum. Allt í einu heyrist klikk klakk klikk klakk - skór á leiðinni í átt að mér. Treð sárum fótunum alltof hratt ofan í skóna, finn nokkrar blöðrur springa á meðan ég set upp sölumannsbrosið. 

Horfi á konu koma nær og nær með eiginmann sinn í eftirdragi. Hann horfir löngunaraugum út um gluggann, og það sést greinilega honum líður ekki vel. Hún labbar í takt við heilalausa píkupoppið sem við erum búnar að spila í allan dag. Ég byrja að labba nær henni með brosið límt á andlitið.

 -"Afsakið, en áttu nokkuð þennan bol í 38?"

Eiginmaður hennar horfir á mig með örvæntingu, og vonar innilega að ég eigi bolinn, svo að verslunarleiðangri dagsins ljúki sem fyrst.

-"Nei, því miður, þetta eru síðustu bolirnir." svara ég þolinmóð í 38.skiptið í dag. Eiginmaðurinn dæsir, viðskiptavinkonan snýr sér við og heldur áfram að leita sér að flottum bol.

Mig langar að fara úr skónum aftur, en tek ekki áhættuna. Finn mér í staðinn eitthvað að gera þar sem ég get staðið kyrr. Ákveð að brjóta saman nokkrar peysur á stóru borði. Þegar ég er búin með einn bunka og fer að næsta, þá kemur kúnni - tekur upp 3 samanbrotnar peysur, veltir þeim fyrir sér og hendir þeim svo aftur á borðið. Ég reyni að láta þetta ekki fara í taugarnar á mér, en fer í staðinn að næsta borði.

Ég byrja að taka upp gallabuxur sem einhver hefur hent á gólfið. Á meðan ég er að taka upp 4 pör kemur unglingsstelpa og hendir 3 pörum á gólfið og stígur svo á þau. Langar mest að henda öllum gallabuxunum á gólfið og fara bara að væla eða öskra eitthvað á stelpuna. Tel í staðinn til 10 og anda djúpt. 

Anda djúpt....

 



Feminasizmi í umferdinni.

Það hefur verið þónokkur umræða um gönguljósin við gangbrautir. Femínistar vilja að "rauði karlinn" verði "rauða konan," og bætt verði á hana hári, brjóstum og rassi. Ég tel mig vera femínista - en ég alveg ótrúlega ósammála í þessu máli. Mér finnst þetta allt annað en femínismi!

Í mínum augum gætu götuljósin alveg eins verið kona. Hver hefur gefið okkur konum þá hugmynd, að við verðum að vera með stór brjóst, flottan rass og sítt hár? Það er bara bull og algjör andstæða annara baráttumála femínista. Þessi postulíns barbie sem allar konur eiga að reyna að líkjast - með sítt fallegt hár, hvítar tennur, stór brjóst, mjótt mitti, útstæðan rass og langa, brúna fótleggi - sem er á forsíðum allra blaða, í sjónvarpinu, á strætóum, í bókum og út um allt(!) er stórt vandamál. Það ætti að útrýma þessari geðveiku ímynd af hinni fullkomnu konu, þar sem það er gjörsamlega útilokað að vera eins og hún.

"Konur eiga að fá að vera eins og þær vilja!" segja femínistar, en vilja samt að rauði karlinn verði eins og hin fullkomna kona, þannig að við hinar (sem erum kannski ekki beint eins og barbie) fáum enn fleiri hugmyndir um hvernig við eigum að líta út. Húrra! Er ég sú eina sem finnst þetta ekki alveg meika sens?

Mér er sama þótt að konur fari að kalla þetta "rauða og græna konan" í staðinn fyrir rauða og græna manninn ... En erum við samt ekki líka kvenmenn ?

Rassgatis..

2 vikur á Íslandi, mánuður hérna heima og að vinna á hverjum degi, 3 vikur á Grænlandi, 4 dagar heima, ein helgi í Bindslev og kroppurinn er búinn að fá nóg og fór í verkfall í dag. (Og hjólið mitt líka..) Eigiði góðan dag Bandit

Danmörk.

Ég hugsa oft um það hvernig líf mitt væri núna ef ég ætti ennþá heima á Íslandi. Hvernig manneskja ég væri þá, og hvar ég væri stödd í lífinu! Ég get ómögulega ímyndað mér það, en samt hef ég á tilfinningunni að ég væri alls ekkert lík sjálfri mér í dag. Danmörk hefur bara gert góða hluti fyrir mig. Fyrir utan það augljósa s.s. tungumál og kúltur er ég búin að læra hvað orðið "umburðarlyndi" þýðir, og þurft að vera umburðarlynd og opin fyrir nýjum hlutum, sem ég var ekki vön frá Skagaströnd á Íslandi! Ég er búin að kynnast fólki með öðruvísi trú, húðlit, skoðanir og tungumál en ég, og það þýðir að ég hef lært ýmislegt sem ég hefði annars ekki kynnst.  Ég er ótrúlega heppin.. Danmörk er yndislegt land!


Er allt að verða vitlaust?

Jæja gott fólk! Ég ætla að reyna að endurvekja þessa síðu. Hún hefur ekki verið neitt sérstaklega lífleg upp á síðkastið, sem er reyndar eitthvað annað en líf mitt. Þar er allt á fullu, og ég hef varla tíma til að sofa eða borða. En nú ákvað ég að taka mér smá tíma til að blogga, þannig að lesiði þetta alveg í tætlur, því ég veit ekki hvenær það gerist aftur!

Ég horfði á fréttirnar áðan (sem gerist reyndar heldur ekki oft vegna tímaleysis) og þar var sýnt frá landsfundi Dansk Folkeparti, sem er einn pólítískur flokkur hérna í Danmörku. Það er ákaflega hægrisinnaður flokkur, sem vinnur mikið med Venstre (næstlengst til hægri, þrátt fyrir nafnið) DF (dansk folkeparti) eru mjög miklir "föðurlandselskendur" eins og þeir segja sjálfir, en "föðurlandsást" þeirra felst í því að vernda Danmörku frá öllum utanaðkomandi, sérstaklega þeim sem hafa annan húðlit en danir. 

Á þessum landsfundi þeirra sagði kona ein, Merete Holm að nafni:

"Út með alla múslima í Evrópu og inn með Gyðingana."

"Ég hata múslima, en ég áreiti þá ekki og ég hálshegg þá ekki, því ég get notað rök í staðinn. En það er gjörsamlega nytjungslaust að rökræða við múslima - tímaeyðsla"

 Ég var gjörsamlega orðlaus þegar ég horfði á þetta. Þetta var svo fáranlegt, að ég vissi varla hvort ég átti að hlæja eða gráta. Ég gerði hvorugt, heldur flýtti ég mér upp í tölvuna og ætlaði að deila þessum asnalegheitum með einhverjum á arto, sem er dönsk spjallsíða. Ég byrja á að fara inn á prófílinn hjá fyrrverandi bekkjarsystur minni, en þar stendur stórum stöfum: "White pride worldwide".. Er allt að verða vitlaust?


Mest lesna grein í dag er..

 .. "The Sun fjallar um Jude og Höllu" 

 Íslendingar eru yndislegir.

jude_law

 

 

 

Það sem mér finnst best við þetta er, að í titlinum á greininni er talað um þau eins og þau séu vinafólk okkar allra. Það er ekki haft fyrir því að skrifa eftirnöfnin þeirra, enda veit hver einasti íslendingur efalaust hver þau eru núna. Alveg fannst mér þetta gasalega fyndið. Er hann ekki íslandsvinur mikill og tengdasonur þjóðarinnar orðinn? Og ég meina.. Allir hafa trú á Höllu, og öllum hefur alltaf fundist hún alveg ótrúlega frábær leikkona! Alveg satt!

 Ég segi það aftur.. Íslendingar eru frábærir!


mbl.is The Sun fjallar um Jude og Höllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Go Britney!

  Það hefur lengi verið draumur minn að raka af mér allt hárið og vera bara náttúruleg. Ég hef aldrei fengið neitt sérstaklega góð viðbrögð við þeirri hugmynd, og ég hef ekki gert það ennþá. 

 En svo óheppilega vill til að ég litaði hárið á mér óvart (já, óvart) fjólublátt á föstudaginn síðastliðinn. Það lítur hörmulega út, og ég hef mikið hugsað um það, hvort ég ætti ekki bara að taka það alveg af. Síðan í dag fer ég inn á mbl.is og það fyrsta sem blasir við mér er, að eitt stærsta idol nútímans, hún Britney Spears, hafi snoðað sig!

 Mikið rosalega varð ég stolt af kerlingunni að hafa gert þetta, en stoltið rýrnaði aðeins þegar ég las áfram, og sá að hún hafi ekki gert þetta 100%, heldur falið skallann með svartri hárkollu. En kannski get ég ekki alveg sett mig í hennar spor, ég á ekki skrilljón aðdáendur sem líta upp til mín. Í greininni stóð jú að aðdáendur hennar halda hana vera á barmi taugaáfalls.

 Ég skil reyndar ekki afhverju við á Íslandi, við í Danmörku og bara við um allan heim þurfum að lesa um hárið á henni í fréttunum. Skiptir það okkur í alvörunni svona miklu máli? Ég vil veðja einhverjum peningum að þetta er á forsíðum allra bandarískra blaða og í öllum fréttum.. Væri það ekki svolítið týpískt? Ég ætti kannski ekki að vera að segja mikið, ég get valið öll heimsins mál að blogga um, en hér sit ég og blogga um hárið á henni.

 Ég vona innilega að Britney taki af sér kolluna og sýni stolt drengjakollinn - því þá bætist einn aðdáandi við í hinn gríðarlega stóra hóp aðdáandaflokk hennar. Neflinlega hún ég.


mbl.is Aðdáendurnir áhyggjufullir og hárlokkarnir til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband