Sunna er götótt..

Þá sit ég hér fyrir framan tölvuna enn á ný, illa lyktandi og götótt. Ekki það að það sé algengt - en það skeður þó oftar en maður myndi halda. Ástæðan fyrir þessu ástandi er þó ekki skortur á persónulegu hreinlæti eða það að ég hafi labbað á gaddavír, heldur eru ástæðurnar tvær: Það er sumar og ég bý úti í sveit. Þeir sem búa í Danmörku vita að þeta tvennt saman er aðeins ávísun á eitt; Mýflugur.

Mýflugur skynja/finna lykt af Co2, og finna þannig manneskjuna sem þær síðan stinga. Þær sprauta blóðþynningarefni inn í æðina og sjúga svo blóðið út. Ég held allavega að það sé svona sem þetta gerist, ég er ekki viss, en á hinn bóginn þá gæti mér ekki verið meira sama hvernig þær fara að því að eyðileggja húðina og nætursvefn minn. Ég veit bara að þær gera það og það er nóg.

Þær hafa alveg sérstakar aðferðir til að fela sig á daginn, þegar ég læðist um allt herbergið með flugnaspaðann að vopni og svo koma þær fram þegar ég er sofnuð. Stundum vakna ég við þennan ólýsanlega pirrandi hátíðnitón í eyranu á mér, en það er samt mjög sjaldan, því þær eru of lúmskar. Þær velja alla staði á líkamanum þar sem ég hef ekki möguleika á að heyra í þeim. Fæturnar eru þeirra uppáhaldsstaður, enda sef ég venjulega í síðum leggings og síðum bol. Þannig að aðeins fæturnar og hendurnar eru eftir berar, já og auðvitað andlitið. 

Ég er búin að reyna flest allt til þess að fæla þessi kvikindi frá mér.. Ég hætti að anda í nokkrar mínútur til að það kæmi ekkert Co2 frá mér, en það virkaði ekki beint. Ég svaf inni í sængurverinu mínu, en hitinn þvingaði mig út. Ég tek b-vítamín. Opna aldrei gluggana. Ekkert virkar. Nýjasta lausnin er að spreyja fæluspreyi út um allan líkamann og inni í herberginu mínu. Lyktin er viðbjóðsleg, en þetta virðist vera að virka. Allavega smá. Núna fæ ég kannski bara eitt á nóttu eða svo. 

En það versta við þessi bit, fyrir utan það hvað þau eru ljót - er hvað þau klæja viðbjóðslega mikið! Maður er endalaust klórandi sér í kringum bitin og þá koma sár. Svo klæja bitin áfram og þá klæjar maður upp sárið, þá koma ör o.s.fr. o.s.fr. 

En það er enn eitt sem gerir þetta allt verra! Við erum 5 í þessari fjölskyldu. Þrír fimmtuhlutar okkar erum eins og hlaupabólusjúklingar, meðan hinir 2 hlutarnir sleppa alveg! Hvað er málið með það? Anda þau ekki jafn mikið, eða? Er blóðið í þeim eitthvað verra, eða okkar eitthvað betra? Ég skil þetta óréttlæti ekki. Mér finnst að við ættum að skipta þessum bitum jafnt á milli okkar, taka 'bitanótt' til skiptis.  Það ætti að banna þessi ógeðslegu meindýr, þau eru ekki til neins gagns.

Ekki meira væl frá mér í kvöld, góðar stundir. 

williams-mosquito


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Mý er bara vibbi..

Gulli litli, 30.8.2008 kl. 06:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband