Um það að verða fullorðin..

Ég er 17 ára og 358 daga gömul í dag. Sem þýðir að eftir 7 daga verð ég 18 ára. Ég verð "fullorðin".. Ég set þetta í gæsalappir, því ég veit alveg að ég verð ekki fullorðin. Það á enginn alvöru fullorðinn sem ég þekki (semsagt einhver sem er búinn að vera það í mörg ár) eftir að líta á mig sem fullorðna. Þetta verður ekki svona: "Jæja, Laufey Sunna mín, þú ert orðin fullorðin. Komdu nú, og við skulum ræða heimsmálin yfir kaffibolla" heldur verður þetta meira svona: "Guð, Laufey Sunna mín, ert þú orðin 18 ára? Ji, hvað þú ert orðin stór. Ég man eftir þér þegar þú varst svona lítil (sýna hvað ég var lítil)". En fólk sem þekkir mig ekki á eftir að líta á mig sem unga konu, en samt ekki alveg fullorðna, ef þið skiljið mig.

En þótt að það að verða 18 ára breyti ekki endilega hvernig fólk lítur á mig, þá breytir það hvernig ég lít á sjálfa mig og það breytir svo sannarlega öllu um hvað ég má og má ekki. Ég má sjálf leigja mér mynd á vídjóleigunni án kennitölu foreldra minna. Ég má keyra bíl (ég bý í DK, þess vegna er ég ekki komin með prófið. Ömurlegt að vera ári á eftir, i know), og ef allt gengur vel þá verð ég komin með bílprófið eftir ca. 2 vikur. Ég get fengið fjárhagslegan stuðning frá ríkinu til að flytja í mína eigin íbúð afþví að ég er í skóla (aftur; ég bý í DK, þess vegna hef ég efni á að mennta mig og búa í eigin íbúð. Núna hljómar það að fá bílpróf árinu á eftir þeim á Íslandi ekki svo slæmt, ha?) og ég er búin að sækja um á helling af stöðum. Ég má fá yfirdrátt á kortið mitt - ef ég myndi fá mér þannig kort. En ég ætla ekki að gera það, bara svona til að tryggja að ég eigi einhverja framtíð fyrir mér - ekki í skuld. Ég má fara löglega inn á diskótek núna (aftur: DK), og þarf þar af leiðandi ekki að misnota nafn og kennitölu annarra.

Þetta er náttúrlega allt æðislegt. En ég má líka... Borga sjálf vídjómyndina sem ég leigi mér. Borga bensín á bílinn og borga tryggingar. Ég má líka borga húsaleigu og mat sjálf. (Samt með stuðningi frá ríkinu) Ég þarf að skipuleggja mig og opna allan póst og setja hann í möppur. Ef eitthvað bilar í íbúðinni, þá þarf ég sjálf að laga það eða hringja eitthvert og tala við einhvern sem getur hjálpað mér. Ég þarf sjálf að fara í bankann og kunna allt um peninga og skipuleggja mig þannig að ég eigi pening fyrir mat. Ég þarf alltaf sjálf að þvo mín eigin föt og þvo íbúðina. Ég þarf að kaupa allt inn í íbúðina. Ég þarf að kaupa allskyns sem ég geri mér ekki grein fyrir að maður ÞURFI að eiga, eins og tannkrem, sápu, eldhúsbréf, plástur, álpappír, plastpoka, sykur, kaffi, kalktöflur í uppþvottavélina, klemmur o.s.frv! 

Ég veit ekki hvort þið skynjið hvað ég skrifaði þetta allt saman hratt og svitnaði mikið á meðan?! Hræðslan náði alveg fram í fingurgómana þegar ég skrifaði þetta.. Mig er búið að langa að verða fullorðin síðan ég var 8 og hálfs árs.. En núna, 9 árum seinna þegar það er að fara að gerast, þá er ég farin að hugsa svolítið meira praktískt út í þetta. Það er miklu auðveldara að vera bara lítil og leyfa mömmu og pabba að hugsa um að kaupa klósetthreinsi og tuskur. Og hvað nú ef ég gleymi að kaupa þetta allt eða hef ekki efni á að borga þetta allt eða eitthvað? Þá bara.. "Jæja, þú ert komin á svartalistann hjá okkur því þú borgaðir ekki reikninginn, því þú gleymdir að opna bréfið frá okkur. Svo þegar við komum að ræða við þig um þetta og kannski gefa þér sjéns, þá áttirðu ekki einu sinni kaffi til að bjóða okkur uppá?!" Og þá er ég bara lítil 18 ára fullorðin stelpa sem veit ekki hvað hún á að gera.

En já.. Annars hlakka ég bara til að takast á við þetta! Eða eitthvað.. Tek á móti góðum ráðum í "athugasemdir"! Nei nei, svona í alvöru talað, þá hlakka ég endalaust til að eiga mitt eigið. Mína íbúð þar sem ég ræð og get verið ég sjálf án þess að taka tillit til annarra. Ég held það sé æðislegt að geta það stundum. Þetta plömmar sig allt saman og verður ógeðslega gaman.. Ég er viss um það.

"If it works out, it works out. And if it doesn't, it's works out somehow anyways"

Bless fallega fólk, Sunna


Díslenska..

Já, þetta er að gerast.. ég er snúin aftur. Þó án loforða um dags-, viku-, eða mánaðarleg blogg, aðeins loforð um nöldur og kaldhæðni. Þetta verður eitt geðsjúkasta "kom-bakk" ársins ef ekki aldarinnar. Nei, okay, kannski ekki alveg, en þetta er allavega "kom-bakk".

Ástæðan fyrir þessu "kom-bakki" er einmitt að ég kann ekkert íslenskt orð yfir "kom-bakk". Ég fór að hugsa út í þetta og datt bara orðið"aftursnúningur" í hug, og ég hugsa að það sé ekki beint rétt. Ég velti þessu fyrir mér í langan tíma með hraðan hjartslátt og ógleði, en fann svo loksins hið fagra orð "afturkoma". Aah. Um mig breyddist guðdómlegur friður og englarnir sungu. En svo kom að því að það var annað íslenskt orð sem mig vantaði hreinlega í höfuðið á mér, og svo annað og annað og annað.. Þið vitið hvað ég meina. 

Þetta er svosem ekkert óeðlilegt, þar sem ég er búin að búa í Danmörku síðastliðin 5 ár, búin að vera í dönskum skóla og næstum því bara búin að umgangast danskt fólk, nema náttúrlega fjölskylduna mína. En málið er bara, að þegar ég tala við fjölskylduna mína þá get ég sagt "æji þú veist, það heitir bla bla á dönsku" og þau skilja mig. En amma mín og afi eru í heimsókn núna og ótrúlegt en satt þá skilja þau bara ekkert betur þótt ég segi orðið á dönsku.

Þannig að ég ákvað að gera eitthvað við þetta, því þetta getur ekkert annað en endað illa. Ég vil kunna að tala lýtlausa íslensku. Og hana nú. Þess vegna ætla ég að byrja að blogga svona stundum og stundum, því þá þvinga ég sjálfa mig til að hugsa út í hvað ég segi og þarf að setja setningar saman á réttan hátt. Þetta verður góð æfing, en ég bið um smá þolinmæði.

Annars vona ég að þið hafið haft það gott síðustu 7 árin, og við heyrumst!

Þetta var aftursnúningur dagins,

LSG

 


Raunasaga.

Eitt sinn var sú tíð að ég var skemmtilegur bloggari, en sú tíð er liðin. Ég var að skoða gamla bloggsíðu, og mikið asskoti er gaman að hafa svona minningar að lesa nokkrum árum seinna. Ég verð bara að sparka í afturendann á sjálfri mér og blogga eins og enginn sé morgundagurinn.

En jæja, áfram með smjörið. Ég get alveg eins verið heiðarleg: Ég heiti Sunna og ég er hrakfallabálkur. Ég hef þann einstaka og eftirsóknarverða hæfileika að geta hrasað um hvað sem er. Já, gott fólk hvað sem er. Skó, snúrur, gólfteppi, bækur, servíettur(!), föt - you name it. Það gerist auðvitað mjög sjaldan inni í mínu herbergi, þar sem það er aldrei neitt á gólfinu þar, en allsstaðar annarsstaðar. Og jafnvel þegar ég hef ekkert að detta um, þá dett ég samt því að fæturnir geta ekki farið jafn hratt og hugurinn. Ég veit að þú trúir þessu ekki; en meira að segja þegar ég stend alveg kyrr, og það ekkert á gólfinu til að hrasa um, þá einhvernvegin flækist ég í sjálfri mér og dett. Spyrjið foreldra mína ef þið trúið mér ekki.

Ég er ekki þannig stelpa sem get farið í stutt pils og sýnt fram fallega og langa fótleggi. Í fyrsta lagi vegna þess að 20 cm af löppunum á mér urðu eftir inní í móðir minni í fæðingu, og í öðru lagi að ég er með dalmatíugenið, eins og áður kom fram. Ég er alltaf með 2, helst 4 marbletti og nokkur sár eftir hinar ýmsar hrakfallir. Ég er svosem búin sætta mig við það að ég verði alltaf eins og líkamlega þroskaheftur dalmatíupóný, en ég fór að hugsa um daginn - af hverju ég?!

Það getur vel verið að ég hafi brotið spegil einhvertímann, en ég meina - maður þarf að asskoti óheppinn til þess að brjóta spegil. Ekki satt? Ég efast um að þetta sé eitthvað í genunum, nema að þetta hafi bara orðið til í mér, sem síðan hefur farið í litlabróður minn. Reyndar er stóribróðir minn með eitthvað af þessu.. Ætli þetta þróist ekki og vaxi fyrir hvert skipti. Síðan eru sumar manneskjur sem hrasa aldrei þegar aðrir sjá, geta safnað nöglum og átt gatalausa sokka í nokkrar vikur. Ætli það sé ekki einhverskonar kúla í kringum þetta fólk, sem varnar þeim frá að skalla veggi og detta um alla þröskulda sem það sér (ekki).

Fólk segir oft að maður þroskist upp úr þessu. Já góðan daginn?! Ég er 16 ára stelpa, og fyrsta daginn minn í menntaskóla skallaði ég 2 metra breiða súlu sem stendur í miðjum matsalnum við mikla kátínu eldri nemanda. Ég er alveg til í að fara að þroskast upp úr þessu. Núna, bara.. Það myndi passa fínt. Áður en ég hryn fram á lyklaborðið og eyði þessu bloggi...  Aftur.

 Góðar stundir, Sunna seinheppna. (Betra seint en aldrei, segi ég bara!)

 

falling_man

 


Daud er eg ei...

Bara upptekin upp fyrir minn litla haus.

Thad er svo otrulega typisk eg ad velja erfidasta nam sem er a markadinum, bara afthvi ad eg get thad. Thetta er otrulega erfitt, en eg er samt ad njota thess. En kennararnir herna eru ekki alveg altlaf ad tala nogu mikid saman. Eg er buin ad vera i thessum skola i manud nuna, og vid hofum ekki fengid mikinn heimalærdom. Oftast hofum vid bara thurft ad lesa nokkrar sidur, eda svara nokkrum spurningum. Aldrei fengid ritgerd eda thannig lagad. En i thessari viku hef eg thurft ad skila 4 sidna landafrædi-ritgerd/verkefni, 6 sidna efnafrædi-ritgerd/verkefni, 2 sidna stærdfrædi verkefni, og sidan fengum vid bok a midvikudaginn sem vid attum ad vera buin ad lesa nuna fyrir fostudaginn og forum i prof i henni i morgun. Puff. Og vid erum rett ad byrja.. Bless felagslif!

Annars lidur mer vel og hlutirnar bara i guddi. Eg ætladi bara ad lata adeins vita af mer, hef ekkert ad segja (eda ju, audvitad hef eg thad) nenni bara ekki ad skrifa thad nidur, thannig ad thangad til næst megid thid hafa thad sem best. Heart


Klukk

 

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

Bókasafnsvörður, barnapía, garðyrkjukona og afgreiðsludama í fatabúð.

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:

School of Rock, Manderlay, Crash og Green Mile

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Skagaströnd, Reykjavík,  Næstved og Århus í Danmörku.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

Simpsons, Friends, Sex and the City og Cold Case.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Grænland, England, Svíþjóð og Þýskaland.

Fjórar síður sem ég heimsæki daglega(fyrir utan bloggsíður)

gmail.com, facebook.com, grenaa-gym.dk/lectio, mbl.is

Fjórir staðir sem ég mundi helst vilja vera á núna:

Á Íslandi með vinum mínum í útileigu - sitjandi við bálið með gítar í lopapeysu.. Mmm.

Á risastóru sviði með geðveika hljómsveit fyrir aftan mig og míkrafón í hendinni.

Í minni eigin íbúð í þægilegum sófa, kertaljós og góða mynd.

Í skólanum mínum að taka við stúdentsprófinu mínu með toppeinkunn. 

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

Ég slít keðjuna hér Smile

 

Góða helgi, s 


Hvað í ansk** ertu að hlusta á?!

Ég fór með strætó um daginn, eins og ég geri á hverjum morgni. Ferðin tekur 35-45 mínútur allt eftir bílstjóra. Ég er farin að þekkja bílstjórana nokkuð vel, og get ákveðið út frá þeim hversu langan tíma ferðin tekur, og hvað ég þarf að halda mér fast í beygjunum. Jæja, ég sit vanalega við hliðina á vinkonu minni úr Bönnerup (með dönsku ö-i) Strand. En það skiptir mig eiginlega engu. Ég gæti setið við hliðina á Jesú og ég myndi ekki taka eftir því, ég er svo þreytt. Ég sting alltaf heyrnatólunum í eyrun og fer að sofa. Ég sef alltaf. Og vinkona mín eða djöfullinn eða hver sá sem setur við hliðina á mér sefur líka.

Allt í góðu. Þessi dagur var svosem ekkert sérstakur - ég dröslaði mér út í strætóskýli, skreið inn í strætó þar sem sniglabílstjórinn (keyrir sjúklega hægt, og það er svo mikið drasl í kringum hana, að það mætti halda að hún byggi í strætó = ferðist með húsið sitt um. Ok, þetta er ekki fyndið, en okkur fannst það einhvern mánudagsmorguninn þegar við vorum að tala saman í svefni.) En já, ég dröslaði mér í sætið, iPodinn upp úr vasanum og góða nótt. Síðan þegar ég var svifin inn í draumaland þá var allt í einu bankað á öxlina á mér, og ég sneri mér að vinkonu minni (Þetta reyndist vera hún, ekki Megas eða John Lennon)

"Sunna, hvað í andsk** ertu að hlusta á?!" Og með þessari setningu fylgdi hneykslaðasta andlitsgretta sem ég hef á ævi minni séð. Ég, enn hálf sofandi í þessari ringulreið, lít á æpodinn minn og skellihlæ. Uppgvötaði allt í einu hvaða disk ég hafði sett í spilun. Ég sá að eitt af mínum uppáhaldslögum var að spila, en skildi líka þessa hneykslun hjá vinkonu minni. Það var lagið "Bara að hann hangi þurr" með Hljómsveit Ingimars Eydals. Ég er þekkt fyrir að hlusta freeeekar hátt á tónlist, og hún "vaknaði bara við eitthvað gelt". Það var semsagt lagið "ég tek hundinn" sem hafði komið á undan. Síðan heyrði hún fleiri slagara frá fyrrnefndri hljómsveit og fannst ég alveg þvílíkt hallærisleg. Notaði alla strætóferðina í að reyna að kenna mér að hlusta á technoið á ipodinum hennar. Tókst ekki. Ég er ennþá að reyna að laga rútínuna mína, sem auðvitað fór í kleinu þegar ég missti af minni hálftíma morgun-kríu. Ég ætla að ná mér í hana núna, og setja Helenu og Þorvald á fóninn.

"Ó komdu nú til mín, minn kæri.. Af kossunum þínum ég næri, já sál mína af kæti, hún syngur og sælu mér veitir og þó.. Þú kyssir mig kannski ekki nóg. Hjartað slær búmmbangabang búmmbangabang, vinur minn kær. Búmmbangabang..."

Hafið það sem best elskurnar. Og reynið nú að hanga þurr.. Sunna ykkas.

Ps. Sætasta systir í heiminum leyfði mér að rífa úr sér framtönn í dag. (Ég fæ í alvöru talað eitthvað mikið út úr því. )

 


l_122e9c880bc5c9472f3da712047af3c9
l_20c3120cfc61b1f5520f1ec958909484

 


Svefngalsi.. Æðisleg helgi..

23 heimsóknir á síðuna mína í dag. Þetta er engin tilviljun.. 23... Mamma búin að kíkja 10 sinnum og pabbi 13. Nei, ég segi svona. Takk þið sem lesið þetta, það er gott að vita af ykkur!

Á hverju ári í Árósum (á,á,á) er haldin svokölluð 'festuge' eða veisluvika. Þetta er hin hreinasta snilld. Endalaust af hljómsveitum spila, þekktar og ekki þekktar, það er allskonar uppistand - en það besta er að það er fólk út um allt. Það er gjörsamlega allt morandi í fólki og lífi og það er yndislegt að sjá. Ég kíkti þangað í gær og veðrið var alveg frábært! Fór á kaffihús með Danielle vinkonu minni og við borðuðum þar frábæran mat úti í sólinni, og kjöftuðum og hlógum eins og við ættum lífið að leysa, enda langt síðan við höfum sést almennilega. (Síðasta helgi) Síðan löbbuðum við hring í Århus bæ og horfðum á fólkið - 'I was so sad I could spring', hún var svöng. Hún er alveg ótrúleg. 1,70 á hæð og 50 kíló og hún borðar endalaust. 

Eftir að við höfðum labbað um og haldist í hendur og elskað lífið fór hún heim, og ég fór og hitti vin minn Peer. (Já, vinur er semsagt notað vegna skorts á orðum. Meira en vinur, minna en kærasti. Vinasti!) Við fórum í leikhús að sjá ótrúlega flotta sýningu sem heitir "The only friends we have" Hún var sýnd í Filuren, þar sem ég var að leika þarna um árið. Þetta eru þrír Ameríkanar sem leika þrjár manneskjur með lús, andleg vandamál samt og félagsleg. Þau eru eiginlega ekki með neitt á sviðinu, bara tvær tunnur og spýtu. Þetta var gamanleikur og mikið hlegið. Við töluðum um hvað það er svo miklu meiri upplifun að fara í leikhús í staðinn fyrir bíó - og ekkert það mikið dýrara. Maður á að gera miklu meira af því. Ég er svo heppin að eiga miða á nýja sýningu sem þessir Ameríkanar eru að fara að gera, ásamt tveimur öðrum dönskum leikurum - þar á meðal leiklistarkennaranum mínum henni Tine. Það er sýning án orða og ég hlakka ekkert smá til að sjá hana.

Síðan eftir að við höfðum labbað um og haldist í hendur og elskað lífið fórum við niður á bryggju, þar sem eru svona tjöld til að sitja í. Oft lifandi tónlist og mikið af öl. (Danmörk, þið munið) Þar sátum við ég veit ekki hvað lengi og spjölluðum, já og héldumst í hendur og elskuðum lífið, þangað til að ég tók strætó heim til Danielle minnar einhvern tímann um kvöldið og gisti þar. Hún var síðan að fara að vinna kl 7 um morguninn þessi dugnaðarforkur, þannig að ég tók strætó með henni í bakaríið þar sem hún vinnur og fékk þar lúxusmorgunverð eins og danadrottning. Síðan fór ég niður á lestarstöð, og beið þar eftir lestinni minni, og var komin heim um 11 leytið um morguninn. Það var yndislegt. Síðan er ég bara búin að horfa á sjónvarpið og sofa smá. Já, og náttúrlega mikið í því að haldast í hendur og elska lífið. 

Haldist þið í hendur og elskið lífið, elskurnar. Pís. 


Sunna er götótt..

Þá sit ég hér fyrir framan tölvuna enn á ný, illa lyktandi og götótt. Ekki það að það sé algengt - en það skeður þó oftar en maður myndi halda. Ástæðan fyrir þessu ástandi er þó ekki skortur á persónulegu hreinlæti eða það að ég hafi labbað á gaddavír, heldur eru ástæðurnar tvær: Það er sumar og ég bý úti í sveit. Þeir sem búa í Danmörku vita að þeta tvennt saman er aðeins ávísun á eitt; Mýflugur.

Mýflugur skynja/finna lykt af Co2, og finna þannig manneskjuna sem þær síðan stinga. Þær sprauta blóðþynningarefni inn í æðina og sjúga svo blóðið út. Ég held allavega að það sé svona sem þetta gerist, ég er ekki viss, en á hinn bóginn þá gæti mér ekki verið meira sama hvernig þær fara að því að eyðileggja húðina og nætursvefn minn. Ég veit bara að þær gera það og það er nóg.

Þær hafa alveg sérstakar aðferðir til að fela sig á daginn, þegar ég læðist um allt herbergið með flugnaspaðann að vopni og svo koma þær fram þegar ég er sofnuð. Stundum vakna ég við þennan ólýsanlega pirrandi hátíðnitón í eyranu á mér, en það er samt mjög sjaldan, því þær eru of lúmskar. Þær velja alla staði á líkamanum þar sem ég hef ekki möguleika á að heyra í þeim. Fæturnar eru þeirra uppáhaldsstaður, enda sef ég venjulega í síðum leggings og síðum bol. Þannig að aðeins fæturnar og hendurnar eru eftir berar, já og auðvitað andlitið. 

Ég er búin að reyna flest allt til þess að fæla þessi kvikindi frá mér.. Ég hætti að anda í nokkrar mínútur til að það kæmi ekkert Co2 frá mér, en það virkaði ekki beint. Ég svaf inni í sængurverinu mínu, en hitinn þvingaði mig út. Ég tek b-vítamín. Opna aldrei gluggana. Ekkert virkar. Nýjasta lausnin er að spreyja fæluspreyi út um allan líkamann og inni í herberginu mínu. Lyktin er viðbjóðsleg, en þetta virðist vera að virka. Allavega smá. Núna fæ ég kannski bara eitt á nóttu eða svo. 

En það versta við þessi bit, fyrir utan það hvað þau eru ljót - er hvað þau klæja viðbjóðslega mikið! Maður er endalaust klórandi sér í kringum bitin og þá koma sár. Svo klæja bitin áfram og þá klæjar maður upp sárið, þá koma ör o.s.fr. o.s.fr. 

En það er enn eitt sem gerir þetta allt verra! Við erum 5 í þessari fjölskyldu. Þrír fimmtuhlutar okkar erum eins og hlaupabólusjúklingar, meðan hinir 2 hlutarnir sleppa alveg! Hvað er málið með það? Anda þau ekki jafn mikið, eða? Er blóðið í þeim eitthvað verra, eða okkar eitthvað betra? Ég skil þetta óréttlæti ekki. Mér finnst að við ættum að skipta þessum bitum jafnt á milli okkar, taka 'bitanótt' til skiptis.  Það ætti að banna þessi ógeðslegu meindýr, þau eru ekki til neins gagns.

Ekki meira væl frá mér í kvöld, góðar stundir. 

williams-mosquito


Áfram Ísland!

"30.000 manns mætt til að fagna landsliðinu" 

- Ég elska íslendinga!

Ég er sammála Ólafi Stefánssyni, það er ótrúleg gjöf að vera íslendingur! Hefði viljað vera á Arnarhóli hefði ég getað, en hérna í kotinu í Bönnerup var okkar egin sigurhátið. Við erum búin að hoppa hérna um allt, syngjandi og gargandi - og ég er bara ekki frá því að það hafi fallið eitt tár eða svo. Það er alveg sama hvað maður er langt í burtu.. Maður er og verður alltaf íslendingur :)

476790


mbl.is Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sunnustund/Munnræpa.

Ég hef ekkert bloggað í 58 daga og 42 mínútur. Ef ég segði ykkur að það væri vegna þess að ég hefði ekkert að segja, þá veit ég að því yrði mótmælt ákaflega af fólki sem þekkir mig. Það myndi segja að það væri lygi, og ég myndi játa því. Það er lygi - ég hef alltaf eitthvað að segja. Og þó ég hafi ekkert að segja, þá tala ég samt. Einstalega góður hæfileiki... Misvelliðinn, en góður.

Vandamálið er einfaldlega að ég á erfitt með að koma því sem ég vil segja niður á blað. Eða nei, það er reyndar ekki rétt. (Enn eitt dæmið um það, að þegar ég hef ekkert að segja, þá tala ég. Oft segi ég hluti sem eru ekki réttir, bara til að segja eitthvað. Þið megið reyndar reikna með því að svona 60% af textanum í hverju bloggi hjá mér sé bara eitthvað sem ég er að skrifa til þess að bloggið verði lengra. En þið megið ekki halda að ég sé að því núna núna, og hafi þess vegna skrifað orðið "núna" tvisvar. Ég er einfaldlega að útskýra af hverju það sem ég blogga um er sjaldan í samhengi og oft bara eitthvað bull.) Yes, komin með 12 línur!

Ég á mjög auðvelt með að skrifa sögur, ljóð og annan skáldskap, þar sem vitleysan vellur út úr mér líkt og ég hafi borðað einhvern viðbjóð sem pabbi hefur eldað! Hins vegar virðist öll viskan og allar pælingarnar festast í maganum á mér, svona ljúffengar eins og maturinn hennar mömmu. Mig langar að deila með öllum öðrum í kringum mig, en það er ekki hægt. (Í sambandi við matinn, þá er ekki hægt að deila honum vegna þess að við úlfafjölskyldan erum búin með hann, og í sambandi við viskuna þá er ég ekki alveg viss af hverju.) 

En ég ætla bara að gleyma þessu í smástund og bulla hér fyrir ykkur, kæru (fáu og trúföstu) lesendur. Ég er byrjuð í menntaskóla, er busi og bólugrafin. Námsefnið er auðvelt, bekkurinn minn er hávær og eldri strákarnir sætir. Ég er í sérstöku námi sem heitir IB. Held ég hafi lýst því hér áður.. Anyways, það er allt á ensku og það gengur bara rosalega vel. Auðvitað þarf maður að venjast því að tala alltaf ensku, en maður er fljótur að því. Ég fór á ball í skólanum og kynntist fullt af fólki, sá aðra hlið á kennurunum mínum og talaði við íslenskan strák sem er í skólanum. Hann var reyndar í annarlegu ástandi kl. 20, en mjög fínn.

Talandi um kennarana mína, þá er enskukennarinn minn frábær. Hann er breti, flutti til Danmerkur fyrir 21 árum síðan og er giftur danskri konu. Í fyrsta tímanum okkar með honum var hann að tala um uppbyggingu setninga og gaf okkur dæmi. Hann benti á strák í fremstu röð sem heitir Alex og sagði:

"I'll give you an example of a model 1 sentence;"Alex is a fucking shithead." Ok? 'Alex' is the subject, 'is' is the verb, 'fucking' is an adverb and 'shithead' is the subject complement."

Hress gæji, breskur í gegn. Talandi um breska menn - þá fórum við til Englands hérna um daginn. Það var virkilega gaman og ÓDÝRT. Eða nei, ferðin varð reyndar ótrúlega dýr, en allt var ódýrt, ef þið skiljið hvað ég á við. En the brittish blokes, já. Mjög opnir. Mjööööög opnir. Mjöööööööög opnir. Allir elska Sigur Rós og Björk, og öllum finnst Ísland fallegasta land í heimi. Það hefur enginn komið þangað, en það eru hinsvegar allir á leiðinni þangað. Hehehe. Ef að allir sem segjast ætla að koma til Íslands myndu fara þangað, þá myndi Ísland fyllast. Ég er ekki að grínast.

Semsagt: Allt gott að frétta af mér og heiminum, sérstaklega Íslandi í augnablikinu, við erum stórt land og eigum langbesta handboltalið í heimi. Maður getur varla annað er verið hress. Enda er ég það. En þú?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband