Um það að verða fullorðin..

Ég er 17 ára og 358 daga gömul í dag. Sem þýðir að eftir 7 daga verð ég 18 ára. Ég verð "fullorðin".. Ég set þetta í gæsalappir, því ég veit alveg að ég verð ekki fullorðin. Það á enginn alvöru fullorðinn sem ég þekki (semsagt einhver sem er búinn að vera það í mörg ár) eftir að líta á mig sem fullorðna. Þetta verður ekki svona: "Jæja, Laufey Sunna mín, þú ert orðin fullorðin. Komdu nú, og við skulum ræða heimsmálin yfir kaffibolla" heldur verður þetta meira svona: "Guð, Laufey Sunna mín, ert þú orðin 18 ára? Ji, hvað þú ert orðin stór. Ég man eftir þér þegar þú varst svona lítil (sýna hvað ég var lítil)". En fólk sem þekkir mig ekki á eftir að líta á mig sem unga konu, en samt ekki alveg fullorðna, ef þið skiljið mig.

En þótt að það að verða 18 ára breyti ekki endilega hvernig fólk lítur á mig, þá breytir það hvernig ég lít á sjálfa mig og það breytir svo sannarlega öllu um hvað ég má og má ekki. Ég má sjálf leigja mér mynd á vídjóleigunni án kennitölu foreldra minna. Ég má keyra bíl (ég bý í DK, þess vegna er ég ekki komin með prófið. Ömurlegt að vera ári á eftir, i know), og ef allt gengur vel þá verð ég komin með bílprófið eftir ca. 2 vikur. Ég get fengið fjárhagslegan stuðning frá ríkinu til að flytja í mína eigin íbúð afþví að ég er í skóla (aftur; ég bý í DK, þess vegna hef ég efni á að mennta mig og búa í eigin íbúð. Núna hljómar það að fá bílpróf árinu á eftir þeim á Íslandi ekki svo slæmt, ha?) og ég er búin að sækja um á helling af stöðum. Ég má fá yfirdrátt á kortið mitt - ef ég myndi fá mér þannig kort. En ég ætla ekki að gera það, bara svona til að tryggja að ég eigi einhverja framtíð fyrir mér - ekki í skuld. Ég má fara löglega inn á diskótek núna (aftur: DK), og þarf þar af leiðandi ekki að misnota nafn og kennitölu annarra.

Þetta er náttúrlega allt æðislegt. En ég má líka... Borga sjálf vídjómyndina sem ég leigi mér. Borga bensín á bílinn og borga tryggingar. Ég má líka borga húsaleigu og mat sjálf. (Samt með stuðningi frá ríkinu) Ég þarf að skipuleggja mig og opna allan póst og setja hann í möppur. Ef eitthvað bilar í íbúðinni, þá þarf ég sjálf að laga það eða hringja eitthvert og tala við einhvern sem getur hjálpað mér. Ég þarf sjálf að fara í bankann og kunna allt um peninga og skipuleggja mig þannig að ég eigi pening fyrir mat. Ég þarf alltaf sjálf að þvo mín eigin föt og þvo íbúðina. Ég þarf að kaupa allt inn í íbúðina. Ég þarf að kaupa allskyns sem ég geri mér ekki grein fyrir að maður ÞURFI að eiga, eins og tannkrem, sápu, eldhúsbréf, plástur, álpappír, plastpoka, sykur, kaffi, kalktöflur í uppþvottavélina, klemmur o.s.frv! 

Ég veit ekki hvort þið skynjið hvað ég skrifaði þetta allt saman hratt og svitnaði mikið á meðan?! Hræðslan náði alveg fram í fingurgómana þegar ég skrifaði þetta.. Mig er búið að langa að verða fullorðin síðan ég var 8 og hálfs árs.. En núna, 9 árum seinna þegar það er að fara að gerast, þá er ég farin að hugsa svolítið meira praktískt út í þetta. Það er miklu auðveldara að vera bara lítil og leyfa mömmu og pabba að hugsa um að kaupa klósetthreinsi og tuskur. Og hvað nú ef ég gleymi að kaupa þetta allt eða hef ekki efni á að borga þetta allt eða eitthvað? Þá bara.. "Jæja, þú ert komin á svartalistann hjá okkur því þú borgaðir ekki reikninginn, því þú gleymdir að opna bréfið frá okkur. Svo þegar við komum að ræða við þig um þetta og kannski gefa þér sjéns, þá áttirðu ekki einu sinni kaffi til að bjóða okkur uppá?!" Og þá er ég bara lítil 18 ára fullorðin stelpa sem veit ekki hvað hún á að gera.

En já.. Annars hlakka ég bara til að takast á við þetta! Eða eitthvað.. Tek á móti góðum ráðum í "athugasemdir"! Nei nei, svona í alvöru talað, þá hlakka ég endalaust til að eiga mitt eigið. Mína íbúð þar sem ég ræð og get verið ég sjálf án þess að taka tillit til annarra. Ég held það sé æðislegt að geta það stundum. Þetta plömmar sig allt saman og verður ógeðslega gaman.. Ég er viss um það.

"If it works out, it works out. And if it doesn't, it's works out somehow anyways"

Bless fallega fólk, Sunna


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Þetta verður allt í góðu lagi hjá þér....hef ég nokkurn tíman sagt þér að þú ert glimrandi penni...

Gulli litli, 1.6.2010 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband